Tónskólinn í Reykjavík býður upp á forskóla fyrir börn á fyrstu árum grunnskóla. Forskólanámið er alhliða tónlistarnám sem miðar einnig að því að undirbúa börn undir annað hljóðfæranám. Áhersla er lögð á að veita alhliða tónlistarþjálfun með sköpun, hlustun, hreyfingu og hrynleikjum. Börnin fá að kynnast hljóðfærum, ólíkum tónlistarstílum og læra grunnhugtök tónlistar. Í kennslustundum er áhersla lögð á virðingu, jákvæðni og vináttu þar sem nemendur geta upplifað og skapað í góðu umhverfi. Forskólahóparnir taka þátt í fjölda tónleika og viðburða innan síns hverfis og mynda þá Barna- og unglingakór Grafarvogs og Barnakór Fossvogs. Kennsla fer fram á tveimur stöðum, í Grafarvogskirkju og Bústaðakirkju.
Á fyrsta ári forskólans er áhersla lögð á söng, blokkflautu og slagverk en einnig fá börnin að spreyta sig á fiðlu. Námsefnið er bókin Tuttugu töffarar og Tónlistin er þín eftir Auði Guðjohnsen. Einnig þurfa nemendur að mæta með eigin blokkflautur.
Á öðru ári forskólans er áfram áhersla á söng en í hljóðfærasmiðjum er unnið á hljómborð og ukulele. Námsefnið er meðal annars Það er gaman að spila á píanó eftir Örvar Inga Jóhannesson, Hljómleikur, kennslubók fyrir byrjendur í ukulele og hljómborðsleik eftir Helgu Þórdísi Guðmundsdóttur og Tónlistin er þín eftir Auði Guðjohnsen.
Á þriðja ári hefja börnin einkanám á sitt hljóðfæri en þá býðst nemendum að halda áfram í sönghóp þar sem unnið er með undirstöðuatriði í söngtækni. Söngnemendur halda þá áfram að æfa samsöng í röddum og þeir sem óska fá að spreyta sig í einsöng.
Tímar:
Grafarvogskirkja | Bústaðakirkja | |
Forskóli 1 | Þriðjudagar kl. 16:30-17:40 | Miðvikudagar kl. 16:30-17:40 |
Forskóli 2 | Þriðjudagar kl. 17:00-18:10 | Miðvikudagar kl. 17:00-18:10 |
Sönghópur | Þriðjudagar kl. 18:10-19:00 |
Valdís hóf tónlistarnám sitt ung að árum þegar hún byrjaði að læra á fiðlu. 10 ára að aldri skipti hún yfir á selló auk þess sem hún lærði söng og á píanó. Valdís lauk bachelorgráðu með láði í Music Education (tónlistarkennslu) frá The Hartt School of Music, University of Hartford og meistaragráðu frá Chicago College of Performing Arts. Valdís hefur einnig sótt strengjakennaranámskið hjá The Ohio State University. Sem söngkona hefur hún komið fram í fjöldamörgum söngleikja- og óperuuppfærslum og sem sellóleikari hefur hún spilað með ýmsum hópum og í leikhúsuppfærslum. Fyrir tónlistarflutning hefur Valdís unnið til fjölda verðlauna og hefur starfað við tónlistarflutning og kennslu í Bandaríkjunum, Þýskalandi og á Íslandi.
Auður lauk burtfararprófi frá Söngskólanum í Reykjavík vorið 2001. Hún lauk framhaldsprófi í söng frá Royal Conservatoire of Scotland í Glasgow árið 2003. Auður lauk LRSM söngkennaraprófi frá Söngskólanum í Reykjavík vorið 2005 og mastersgráðu (M.Ed.Art) frá Listaháskóla Íslands árið 2017. Auður hefur komið fram á fjölda tónleika hér heima og erlendis. Auður hefur sungið á fjölda viðburða; sinfóníum, óratóríum, óperusýningum og jazztónleikum í hlutverki einsöngvara og í stærri hópum. Hún hefur lengi sungið í kórum á borð við Schola Cantorum, Barbörukórnum og Cantoque Ensemble sem allir eru skipaðir atvinnusöngvurum. Eftir meistaranámið gaf Auður út söngbók fyrir börn, Tónlistin er þín. Auður hefur samið fjölda kórverka og sönglaga. Hún starfar við tónsmíðar, söng, barnakórstjórn og söngkennslu.
© 2024 Tónskólinn í Reykjavík