Gítar

Námið

Gítarkennslan fer fram í einkatímum sem eru 30 mínútur í senn tvisvar í viku. Yngri nemendur 6 til 8 ára eru tvisvar sinnum 20 mínútur. Byrjendur geta fengið leigð hljóðfæri hjá skólanum. Þegar nemendur eru komnir svolítið áleiðis í náminu eiga þeir kost á samspili. Skólinn býður einnig upp á rytmíska námsleið, þ.e. nám á rafmagnsgítar eða þjóðlagagítar sem er oft nefndur kassagítar.

Hér má lesa um námskrá, námsmat og áfangapróf.

Heilt nám 2x 30 mín á viku (einkanám)
Heilt nám 1x 45 mín á viku og 40 mín samspil (einkanám og samkennsla)
66% nám 2x 20 mín á viku (einkanám)
66% nám 1x 30 mín á viku og 40 mín samspil (einkanám og samkennsla)
50% nám 1x 30 mín á viku (einkanám)

Kennarar

Kristófer Hlífar Gíslason

Kristófer er tónlistarkennari og tónlistarmaður úr Reykjavík. Árið 2019 lauk hann framhaldsprófi á rafgítar úr Tónlistarskóla FÍH. Leið hans lá þaðan beint í Listaháskóla Íslands þar sem hann lauk námi í rytmískri söng- og hljóðfærakennslu árið 2021. Kristófer hefur einnig lokið hljóðtækninámi. Aðalhljóðfæri Kristófers er rafgítar en hann hefur þó í gegnum tíðina einnig stundað nám í píanóleik.

Francisco Javier Jáuregui

Spænski gítarleikarinn og tónskáldið Francisco Javier Jáuregui stundaði nám í klassískum gítarleik í Los Angeles og Madríd áður en hann útskrifaðist með meistaragráðu frá Guildhall School of Music and Drama í London. Javier hefur komið fram á tónleikum, bæði sem einleikari og flytjandi kammertónlistar víðs vegar í Evrópu, Bandaríkjunum, Afríku og Suðaustur-Asíu. Hann hefur flutt gítarkonserta eftir Vivaldi og Rodrigo og önnur verk með sinfóníuhljómsveitum og kemur reglulega fram með öðru tónlistarfólki. Javier hefur leikið inn á fjölmargar upptökur og geisladiska. Hann hefur kennt á gítar frá árinu 1997, m.a. í London og Madríd og flutt fyrirlestra við háskóla á Spáni og í Bandaríkjunum. Á árunum 2002-2019 tók hann þátt í árlegum tónlistarverkefnum í á annað  hundrað skóla á vegum Wigmore Hall tónleikasalarins í London. Javier er einn stofnenda og stjórnenda Festival Internacional de Música de Navarra (FIMNa) á Spáni og Sönghátíðar í Hafnarborg.