Gítar

Námið

Gítarkennslan fer fram í einkatímum sem eru 30 mínútur í senn tvisvar í viku. Yngri nemendur 6 til 8 ára eru tvisvar sinnum 20 mínútur. Byrjendur geta fengið leigð hljóðfæri hjá skólanum. Þegar nemendur eru komnir svolítið áleiðis í náminu eiga þeir kost á samspili. Skólinn býður einnig upp á rytmíska námsleið, þ.e. nám á rafmagnsgítar eða þjóðlagagítar sem er oft nefndur kassagítar.

Hér má lesa um námskrá, námsmat og áfangapróf.

Heilt nám 2x 30 mín á viku (einkanám)
Heilt nám 1x 45 mín á viku og 40 mín samspil (einkanám og samkennsla)
66% nám 2x 20 mín á viku (einkanám)
66% nám 1x 30 mín á viku og 40 mín samspil (einkanám og samkennsla)
50% nám 1x 30 mín á viku (einkanám)

Kennarar

Grétar Geir Kristinsson

Grétar lærði fyrst á gítar hjá ömmu sinni og stundaði síðan nám hjá Kristni Árnasyni við Tónlistarskóla Kópavogs. Eftir að hafa lokið framhaldsprófi þaðan hóf hann nám við Listaháskóla Íslands og útskrifaðist þaðan með B.Mus. í gítarleik árið 2009 eftir að hafa notið leiðsagnar Péturs Jónassonar. Að námi loknu hér á landi fluttist hann til Barcelona á Spáni og nam þar hjá Arnaldi Arnarssyni við Escola Luthier d’Arts Musicals. Hann hefur einnig sótt námskeið í gítarleik m.a. hjá David Russell og Manuel Barrueco. Grétar hefur kennt á gítar í um 20 ár og kennir bæði hefðbundið gítarnám og Suzuki aðferð á klassískan gítar.

Kristófer Hlífar Gíslason

Kristófer er tónlistarkennari og tónlistarmaður úr Reykjavík. Árið 2019 lauk hann framhaldsprófi á rafgítar úr Tónlistarskóla FÍH. Leið hans lá þaðan beint í Listaháskóla Íslands þar sem hann lauk námi í rytmískri söng- og hljóðfærakennslu árið 2021. Kristófer hefur einnig lokið hljóðtækninámi. Aðalhljóðfæri Kristófers er rafgítar en hann hefur þó í gegnum tíðina einnig stundað nám í píanóleik.

Francisco Javier Jáuregui

Spænski gítarleikarinn og tónskáldið Francisco Javier Jáuregui stundaði nám í klassískum gítarleik í Los Angeles og Madríd áður en hann útskrifaðist með meistaragráðu frá Guildhall School of Music and Drama í London. Javier hefur komið fram á tónleikum, bæði sem einleikari og flytjandi kammertónlistar víðs vegar í Evrópu, Bandaríkjunum, Afríku og Suðaustur-Asíu. Hann hefur flutt gítarkonserta eftir Vivaldi og Rodrigo og önnur verk með sinfóníuhljómsveitum og kemur reglulega fram með öðru tónlistarfólki. Javier hefur leikið inn á fjölmargar upptökur og geisladiska. Hann hefur kennt á gítar frá árinu 1997, m.a. í London og Madríd og flutt fyrirlestra við háskóla á Spáni og í Bandaríkjunum. Á árunum 2002-2019 tók hann þátt í árlegum tónlistarverkefnum í á annað  hundrað skóla á vegum Wigmore Hall tónleikasalarins í London. Javier er einn stofnenda og stjórnenda Festival Internacional de Música de Navarra (FIMNa) á Spáni og Sönghátíðar í Hafnarborg.