Gítarsveitir

Námið

Í skólanum æfa þrjár gítarsveitir. Þær eru með ólík efnistök en leika þó saman við ýmis tækifæri. Þegar nemendur hafa náð nokkrum tökum á nótnalestri og grunnfærni á sitt hljóðfæri býðst þeim að leika með gítarsveitum skólans.

Kennarar

Francisco Javier Jáuregui

Spænski gítarleikarinn og tónskáldið Francisco Javier Jáuregui stundaði nám í klassískum gítarleik í Los Angeles og Madríd áður en hann útskrifaðist með meistaragráðu frá Guildhall School of Music and Drama í London. Javier hefur komið fram á tónleikum, bæði sem einleikari og flytjandi kammertónlistar víðs vegar í Evrópu, Bandaríkjunum, Afríku og Suðaustur-Asíu. Hann hefur flutt gítarkonserta eftir Vivaldi og Rodrigo og önnur verk með sinfóníuhljómsveitum og kemur reglulega fram með öðru tónlistarfólki. Javier hefur leikið inn á fjölmargar upptökur og geisladiska. Hann hefur kennt á gítar frá árinu 1997, m.a. í London og Madríd og flutt fyrirlestra við háskóla á Spáni og í Bandaríkjunum. Á árunum 2002-2019 tók hann þátt í árlegum tónlistarverkefnum í á annað  hundrað skóla á vegum Wigmore Hall tónleikasalarins í London. Javier er einn stofnenda og stjórnenda Festival Internacional de Música de Navarra (FIMNa) á Spáni og Sönghátíðar í Hafnarborg.