Æskilegur aldur til að hefja píanónám er 7 til 8 ára, þó er hægt að byrja fyrr sýni nemandinn mikinn þroska og hæfileika. Þessi viðmið er þó engan vegin einhlít þar sem nemendur hefja nám á ýmsum aldri og námshraði getur verið mismunandi.
Mikilvægt er að nemandi hafi píanó til afnota heimafyrir. Hljómborð eða orgel gera ekki sama gagn, þar sem ásláttur og tónblær er allt annar. Styrkur og blæbrigði breytast í hefðbundnum píanóum eftir því hvernig áslátturinn er.
Hér má lesa um námskrá, námsmat og áfangapróf.
Heilt nám 2x 30 mín á viku (einkanám) |
66% nám 2x 20 mín á viku (einkanám) |
50% nám 1x 30 mín á viku (einkanám) |
50% nám 1x 40 mín á viku (samkennsla) |
Petia fæddist í Búlgaríu þar sem hún byrjaði píanónám sitt 5 ára gömul. Hún kom síðan til Íslands þar sem hún lærði hjá Snorra Sigfúsi Birgissyni í Tónlistarskólanum í Reykjavík. Petia fékk styrk til að læra í Idyllwild Arts Academy í Kaliforníu áður en hún fór í framhaldsnám við San Francisco Conservatory. Í Kaliforníu spilaði hún kammertónlist auk þess sem hún spilaði í kirkjum. Hún sneri síðan aftur til Búlgaríu þar sem hún spilaði kammertónlist. Petia hefur kennt á Íslandi í um 20 ár.
Sævar er starfandi tónskáld, kennari og píanóleikari. Hann hóf tónlistarnám sitt í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og FÍH áður en hann fór í LHÍ þar sem hann lauk BA gráðu í tónsmíðum. Samhliða gráðunni fékk Sævar píanótíma hjá Eyþóri Gunnarssyni og Kjartani Valdemarssyni. Eftir útskrift starfaði Sævar við hin ýmsu verkefni ásamt því að kenna. Þ.á.m. samdi hann tónlist fyrir leikhúsuppfærslur og stuttmyndir, vann lagasmiðjur og tónlistarverkefni með fólki í endurhæfingu (Metamorphonics og Korda samfóníu) og hefur gefið út plötur með sinni eigin tónlist. Sævar samdi tónlistina við stuttmyndina Weather Rules the Field, but Whim the Child, sem var m.a. sýnd á kvikmyndahátíðunum Shortshorts & Asia í Tókýó og RIFF í Reykjavík árið 2024. Sævar stundar nú mastersnám í tónsmíðum við LHÍ samhliða kennslu.
Hafdís Kristinsdóttir stundaði píanónám í Tónlistarskóla Borgarfjarðar, Tónlistarskólanum á Akranesi og Tónskóla Sigursveins. Hún lauk tónmenntakennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1983 og píanókennaraprófi frá Tónskóla Sigursveins árið 1996. Hafdís hefur kennt á píanó með stuttum hléum síðan árið 1978.
Arndís Björk lauk píanókennaraprófi og burtfararprófi í píanóleik frá Tónlistarskólanum í Reykjavík, undir leiðsögn Halldórs Haraldssonar. Eftir það hélt hún til Prag í Tékklandi þar sem hún stundaði framhaldsnám í píanóleik. Árið 1997 hóf Arndís að kenna á píanó og sama ár hóf hún störf hjá Ríkisútvarpinu þar sem hún byrjaði sem tónlistargagnrýnandi í Víðsjá en gerði síðar fjölmarga tónlistarþætti af ýmsum toga. Hún hafði m.a. aðalumsjón með beinum útsendingum frá tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands um árabil og starfaði einnig sem útsendingarstjóri Rásar 1 og þulur. Arndís hefur setið í stjórn Íslandsdeildar EPTA (Evrópusambands píanókennara) og hefur einnig starfað sem tónlistargagnrýnandi fyrir DV og Heimildina. Hún var auk þess formaður Tónlistarsjóðs Menntamálaráðuneytis/Rannís og starfaði sem verkefnastjóri við ýmsar tónlistarhátíðir líkt og Reykholtshátíð, Listahátíð í Reykjavík og Reykjavík Midsummer Music.
Kristófer er tónlistarkennari og tónlistarmaður úr Reykjavík. Árið 2019 lauk hann framhaldsprófi á rafgítar úr Tónlistarskóla FÍH. Leið hans lá þaðan beint í Listaháskóla Íslands þar sem hann lauk námi í rytmískri söng- og hljóðfærakennslu árið 2021. Kristófer hefur einnig lokið hljóðtækninámi. Aðalhljóðfæri Kristófers er rafgítar en hann hefur þó í gegnum tíðina einnig stundað nám í píanóleik.
Victoria Tarevskaia er frá Moldavíu en hún lærði í Tónlistarskólanum í Moldavíu, í St. Petersburg Conservatory N.A. Rimsky Korsakov og útskrifaðist með mastersgráðu í sellóleik frá Tónlistarakademíu G. Musichescu í Chisinau árið 1994. Victoria lék með Moldavian Philharmonic Symphony Orchestra og Sinfóníu Nord ásamt ýmsum kammerhópum. Victoria hefur starfað sem sellókennari og lausamaður hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands síðan 1999.
Katrin kemur frá Kiel í Þýskalandi. Hún stundaði nám í flautuleik, með píanó sem annað hljóðfæri, við Tónlistarháskólann í Detmold, Þýskalandi. Hún útskrifaðist frá Listaháskólanum í Berlín í febrúar 2000 og útskrifaðist síðar með BA (Hons) í þýskri bókmenntafræði og kennslufræði frá Humboldt háskólanum í Berlín. Frá 1995 starfaði Katrin sjálfstætt í Berlín sem kennari og flautuleikari í ýmsum hljómsveitum og kammerhópum. Katrin flutti til Englands árið 2003 og hélt þar áfram starfi sínu sem flautuleikari og flautukennari, ásamt því að vinna við tónlistarmeðferðir. Frá 2013 til dagsins í dag þjálfar Katrin tréblásarana á hljómsveitarnámskeiði í Wies, Suður-Þýskalandi. Katrin var stofnmeðlimur flautukvintettsins Sussex Flutes. Katrin spilar fyrstu flautu með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands á tónleikum og upptökum. Katrin hefur einnig komið fram á hinum ýmsu kammertónleikum í Reykjavík.
Antonía Hevesi er fædd í Ungverjalandi og útskrifaðist úr F. Liszt-tónlistarakademíunni í Búdapest með M.A. í kórstjórn og sem framhaldsskólakennari í söng og hljómfræði. Einnig stundaði hún orgelnám við Tónlistarháskólann í Graz hjá Otto Bruckner. Hún hefur haldið fjölda tónleika sem orgelleikari og píanómeðleikari víðsvegar í Evrópu og Kanada. Hún hefur tekið þátt í meistaranámskeiðum í píanóundirleik og söng og spilað inn á geisladiska. Frá því í ágúst 2002 hefur Antonía verið listrænn stjórnandi og píanóleikari hádegistónleikaraðar Hafnarborgar og hefur hún ennfremur komið fram á flestum hádegistónleikum Íslensku óperunnar frá árinu 2009. Hún var einn af stofnendum Óp-hópsins. Á undanförnum árum hefur hún tekið þátt í uppfærslum á hátt í 40 óperum með Norðurópi, Litlu óperukompaníi, Óp-hópnum og hjá Íslensku óperunni.
Yang er fæddur og uppalinn í Kaliforníu og hefur undanfarin ár stimplað sig vel inn í tónlistarlífið á Íslandi sem einn af áhugaverðari píanóleikurum landsins eftir að hann flutti fyrir nokkrum árum til Patreksfjarðar. Yang er stofnandi og listrænn stjórnandi Íslensku píanóhátíðarinnar og einnig Alþjóða píanóhátíðar Vestfjarða. Hann hefur komið fram á tónleikum víðsvegar í Evrópu, Bandaríkjunum og Asíu og hefur unnið til fjölda verðlauna fyrir píanóleik sinn. Yang útskrifaðist með B.A. í hagfræði og B.M. í píanóleik frá Northwestern University. Hann útskrifaðist með M.M. í píanóleik frá Mannes School of Music í New York þar sem hann hlaut verðlaun fyrir framúrskarandi námsárangur. Eftir það fór hann í doktorsnám við USC Thornton School of Music þar sem hann kenndi píanónemendum á háskólastigi.
Jónas Sen er íslenskur píanóleikari, tónlistargagnrýnandi og fjölmiðlamaður með fjölbreyttan tónlistarferil. Jónas nam píanóleik í París hjá Monique Deschaussées. Hann lauk síðan meistaragráðu í tónlist (Performance Studies) frá City University í London. Jónas er einnig með meistaragráðu í menningar- og menntastjórnun frá Viðskiptaháskólanum á Bifröst. Hann hefur komið fram sem einleikari auk þess að starfa sem tónlistargagnrýnandi. Eitt af eftirminnilegustu verkefnum hans er samstarf við Björk Guðmundsdóttur, þar sem hann starfaði sem píanóleikari á tónleikaferðalögum hennar og tók þátt í ýmsum tónlistaruppsetningum hennar. Jónas hefur einnig stýrt tónlistarþáttum í sjónvarpi með þekktu tónlistarfólki. Hann er virtur fyrir fjölhæfni sína og skarpa greiningu á tónlist, sem hefur haft mikil áhrif á íslenskt menningarlíf. Jónas hefur starfað við píanókennslu frá árinu 1987.
© 2024 Tónskólinn í Reykjavík