Yang er fæddur og uppalinn í Kaliforníu og hefur undanfarin ár stimplað sig vel inn í tónlistarlífið á Íslandi sem einn af áhugaverðari píanóleikurum landsins eftir að hann flutti fyrir nokkrum árum til Patreksfjarðar. Yang er stofnandi og listrænn stjórnandi Íslensku píanóhátíðarinnar og einnig Alþjóða píanóhátíðar Vestfjarða. Hann hefur komið fram á tónleikum víðsvegar í Evrópu, Bandaríkjunum og Asíu og hefur unnið til fjölda verðlauna fyrir píanóleik sinn. Yang útskrifaðist með B.A. í hagfræði og B.M. í píanóleik frá Northwestern University. Hann útskrifaðist með M.M. í píanóleik frá Mannes School of Music í New York þar sem hann hlaut verðlaun fyrir framúrskarandi námsárangur. Eftir það fór hann í doktorsnám við USC Thornton School of Music þar sem hann kenndi píanónemendum á háskólastigi.
Antonía Hevesi er fædd í Ungverjalandi og útskrifaðist úr F. Liszt-tónlistarakademíunni í Búdapest með M.A. í kórstjórn og sem framhaldsskólakennari í söng og hljómfræði. Einnig stundaði hún orgelnám við Tónlistarháskólann í Graz hjá Otto Bruckner. Hún hefur haldið fjölda tónleika sem orgelleikari og píanómeðleikari víðsvegar í Evrópu og Kanada. Hún hefur tekið þátt í meistaranámskeiðum í píanóundirleik og söng og spilað inn á geisladiska. Frá því í ágúst 2002 hefur Antonía verið listrænn stjórnandi og píanóleikari hádegistónleikaraðar Hafnarborgar og hefur hún ennfremur komið fram á flestum hádegistónleikum Íslensku óperunnar frá árinu 2009. Hún var einn af stofnendum Óp-hópsins. Á undanförnum árum hefur hún tekið þátt í uppfærslum á hátt í 40 óperum með Norðurópi, Litlu óperukompaníi, Óp-hópnum og hjá Íslensku óperunni.
Arndís Björk lauk píanókennaraprófi og burtfararprófi í píanóleik frá Tónlistarskólanum í Reykjavík, undir leiðsögn Halldórs Haraldssonar. Eftir það hélt hún til Prag í Tékklandi þar sem hún stundaði framhaldsnám í píanóleik. Árið 1997 hóf Arndís að kenna á píanó og sama ár hóf hún störf hjá Ríkisútvarpinu þar sem hún byrjaði sem tónlistargagnrýnandi í Víðsjá en gerði síðar fjölmarga tónlistarþætti af ýmsum toga. Hún hafði m.a. aðalumsjón með beinum útsendingum frá tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands um árabil og starfaði einnig sem útsendingarstjóri Rásar 1 og þulur. Arndís hefur setið í stjórn Íslandsdeildar EPTA (Evrópusambands píanókennara) og hefur einnig starfað sem tónlistargagnrýnandi fyrir DV og Heimildina. Hún var auk þess formaður Tónlistarsjóðs Menntamálaráðuneytis/Rannís og starfaði sem verkefnastjóri við ýmsar tónlistarhátíðir líkt og Reykholtshátíð, Listahátíð í Reykjavík og Reykjavík Midsummer Music.
Auður lauk burtfararprófi frá Söngskólanum í Reykjavík vorið 2001. Hún lauk framhaldsprófi í söng frá Royal Conservatoire of Scotland í Glasgow árið 2003. Auður lauk LRSM söngkennaraprófi frá Söngskólanum í Reykjavík vorið 2005 og mastersgráðu (M.Ed.Art) frá Listaháskóla Íslands árið 2017. Auður hefur komið fram á fjölda tónleika hér heima og erlendis. Auður hefur sungið á fjölda viðburða; sinfóníum, óratóríum, óperusýningum og jazztónleikum í hlutverki einsöngvara og í stærri hópum. Hún hefur lengi sungið í kórum á borð við Schola Cantorum, Barbörukórnum og Cantoque Ensemble sem allir eru skipaðir atvinnusöngvurum. Eftir meistaranámið gaf Auður út söngbók fyrir börn, Tónlistin er þín. Auður hefur samið fjölda kórverka og sönglaga. Hún starfar við tónsmíðar, söng, barnakórstjórn og söngkennslu.
Auður lauk einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík. Hún stundaði framhaldsnám við New England Conservatory í Boston og lauk Bachelor of Music gráðu með hæstu einkunn. Auður lauk Master of Music gráðu frá University of Minnesota þar sem hún var nemandi hinna virtu hjóna Almitu og Roland Vamos. Auður hefur komið víða fram sem einleikari og í kammermúsík á alþjóðlegum vettvangi, m.a. í Bandaríkjunum, Kanada og víða á meginlandi Evrópu. Auður hefur leikið inn á fjölda geisladiska fyrir innlend og erlend útgáfufyrirtæki og fengið frábæra dóma fyrir leik sinn. Margir nemenda Auðar hafa unnið til verðlauna og stunda nám við erlenda tónlistarháskóla.
Edda hefur lokið bakkalár-, söngkennara- og diplomaprófi frá Royal Academy og Music og meistaraprófi í tónlist frá Royal Conservatoire of Scotland. Hún lauk síðar meistaragráðu í markaðsfræðum og alþjóðaviðskiptum frá Háskóla Íslands og Diplóma í listkennslu með kennsluréttindum frá Listaháskóla Íslands. Edda hefur fengist við bóka- og tónlistarútgáfu, uppsetningar, verkefnastjórn tónlistarverkefna, meðal annars í Hörpu þar sem hún starfaði einnig sem markaðsstjóri. Hún hefur starfað við tónmenntakennslu, forskólakennslu, söngkennslu og kórstjórn. Edda syngur reglulega einsöng við kirkjulegar athafnir og með kammerkór. Áður hefur Edda sungið í óperum hjá Íslensku óperunni, Zurich óperunni og Garsington óperunni og hefur komið fram í Englandi, Skotlandi, Sviss, Spáni og Þýskalandi. Edda gegndi hlutverki aðstoðarskólastjóra við tónlistarskólann frá 2022 en tók við skólastjórn vorið 2023.
Spænski gítarleikarinn og tónskáldið Francisco Javier Jáuregui stundaði nám í klassískum gítarleik í Los Angeles og Madríd áður en hann útskrifaðist með meistaragráðu frá Guildhall School of Music and Drama í London. Javier hefur komið fram á tónleikum, bæði sem einleikari og flytjandi kammertónlistar víðs vegar í Evrópu, Bandaríkjunum, Afríku og Suðaustur-Asíu. Hann hefur flutt gítarkonserta eftir Vivaldi og Rodrigo og önnur verk með sinfóníuhljómsveitum og kemur reglulega fram með öðru tónlistarfólki. Javier hefur leikið inn á fjölmargar upptökur og geisladiska. Hann hefur kennt á gítar frá árinu 1997, m.a. í London og Madríd og flutt fyrirlestra við háskóla á Spáni og í Bandaríkjunum. Á árunum 2002-2019 tók hann þátt í árlegum tónlistarverkefnum í á annað hundrað skóla á vegum Wigmore Hall tónleikasalarins í London. Javier er einn stofnenda og stjórnenda Festival Internacional de Música de Navarra (FIMNa) á Spáni og Sönghátíðar í Hafnarborg.
Gunnar Karel fæddist árið 1984 í Reykjavík. Snemma hóf hann tónlistarnám og hefur hann spilað á mörg mismunandi hljóðfæri. Sem tónskáld hefur Gunnar einbeitt sér fyrst og fremst að kammertónlist, þar sem honum finnst tónlistin fá þar athygli sem að hún þarfnast. Fyrir utan tónsmíðarnar þá hefur Gunnar einnig haslað sér völl sem tónleikahaldari. Sérstaklega má nefna Sonic hátíðina í Kaupmannahöfn, sem hann setti á laggirnar ásamt Filip C. de Melo árið 2012. Einnig er hann einn af listrænum stjórnendum tónleikaraðarinnar Jaðarber í Reykjavík. Gunnar er meðlimur í DKF, leikhópnum 16 elskendur og S.L.Á.T.U.R.
Halldór hefur kennt á harmóniku í meira en 10 ár, á Akranesi og höfuðborgarsvæðinu. Hann lærði hjá Guðmundi Samúelssyni í Tónlistarskólanum í Grafarvogu og lauk þaðan framhaldsprófi árið 2012. Halldór hefur spilað með Harmónikukvintettinum í Reykjavík og hefur spilað t.d. á Nótunni og á Þjóðlagahátíð á Siglufirði.
Hjalti Þór, fæddur 1995, hefur stundað tónlistarnám frá barnsaldri. Hann lærði á saxófón og klassískan söng en hóf píanónám 19 ára gamall og 21 árs var Hjalti tekinn í Listaháskóla Íslands í klassískt píanónám. Hann lauk Bmus gráðu í píanóleik frá Listaháskólanum vorið 2021 undir leiðsögn Kristján Karls Bragasonar, Peter Máté og Eddu Erlends. Samhliða píanónáminu lærði hann tónsmíðar hjá Elínu Gunnlaugsdóttur. Hjalti Þór hefur komið fram víða og má þar nefna Musiikattalo í Helsínki, listahátíð á Korsiku og í Hörpu og hefur einnig komið mikið fram sem meðleikari. Hjalti Þór hefur kennt við ýmsa tónlistarskóla. Hjalti hefur unnið mörg verkefni sem hljóðfæraleikari og tónskáld og hefur hlotið styrki frá Rannís fyrir verkefnið “Hinseginleiki á Óperusviðinu”. Jafnframt því hefur hann hlotið styrk úr tónskáldasjóði RUV og Stef til að semja sönglög við ljóð Kristjáns Jónssonar fjallaskálds og styrk úr borgarsjóði til að halda tónleika á Óperudögum. Enn fremur styrk úr Verðandi, sjóði Menningarfélags Akureyrar (MAK).
Jónas Sen er íslenskur píanóleikari, tónlistargagnrýnandi og fjölmiðlamaður með fjölbreyttan tónlistarferil. Jónas nam píanóleik í París hjá Monique Deschaussées. Hann lauk síðan meistaragráðu í tónlist (Performance Studies) frá City University í London. Jónas er einnig með meistaragráðu í menningar- og menntastjórnun frá Viðskiptaháskólanum á Bifröst. Hann hefur komið fram sem einleikari auk þess að starfa sem tónlistargagnrýnandi. Eitt af eftirminnilegustu verkefnum hans er samstarf við Björk Guðmundsdóttur, þar sem hann starfaði sem píanóleikari á tónleikaferðalögum hennar og tók þátt í ýmsum tónlistaruppsetningum hennar. Jónas hefur einnig stýrt tónlistarþáttum í sjónvarpi með þekktu tónlistarfólki. Hann er virtur fyrir fjölhæfni sína og skarpa greiningu á tónlist, sem hefur haft mikil áhrif á íslenskt menningarlíf. Jónas hefur starfað við píanókennslu frá árinu 1987.
Katrin kemur frá Kiel í Þýskalandi. Hún stundaði nám í flautuleik, með píanó sem annað hljóðfæri, við Tónlistarháskólann í Detmold, Þýskalandi. Hún útskrifaðist frá Listaháskólanum í Berlín í febrúar 2000 og útskrifaðist síðar með BA (Hons) í þýskri bókmenntafræði og kennslufræði frá Humboldt háskólanum í Berlín. Frá 1995 starfaði Katrin sjálfstætt í Berlín sem kennari og flautuleikari í ýmsum hljómsveitum og kammerhópum. Katrin flutti til Englands árið 2003 og hélt þar áfram starfi sínu sem flautuleikari og flautukennari, ásamt því að vinna við tónlistarmeðferðir. Frá 2013 til dagsins í dag þjálfar Katrin tréblásarana á hljómsveitarnámskeiði í Wies, Suður-Þýskalandi. Katrin var stofnmeðlimur flautukvintettsins Sussex Flutes. Katrin spilar fyrstu flautu með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands á tónleikum og upptökum. Katrin hefur einnig komið fram á hinum ýmsu kammertónleikum í Reykjavík.
Kristófer er tónlistarkennari og tónlistarmaður úr Reykjavík. Árið 2019 lauk hann framhaldsprófi á rafgítar úr Tónlistarskóla FÍH. Leið hans lá þaðan beint í Listaháskóla Íslands þar sem hann lauk námi í rytmískri söng- og hljóðfærakennslu árið 2021. Kristófer hefur einnig lokið hljóðtækninámi. Aðalhljóðfæri Kristófers er rafgítar en hann hefur þó í gegnum tíðina einnig stundað nám í píanóleik.
Matthías Stefánsson nam fiðluleik við Tónlistarskóla Akureyrar frá fimm ára aldri til sextán ára aldurs. Matthías tók 7. stig í fiðluleik frá Tónlistarskólanum á Akureyri en lauk svo burtfararprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík ásamt því að stunda nám í gítarleik við Tónlistarskóla FÍH. Matthías hefur verið starfandi tónlistarmaður síðan 2002 ásamt því að kenna á fiðlu og gítar. Matthías hefur spilað á yfir 150 geisladiskum og hefur starfað með flestum þekktari tónlistarmönnum Íslands. Hann hefur tekið þátt í fjölda leikrita/söngleikjum og tónleikauppfærslum og sem tónlistarmaður hjá Þjóðleikhúsinu, Borgarleikhúsinu, Íslensku óperunni, Íslenska dansflokknum, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Matthías hefur samið tónlist og útsett fyrir listamenn ásamt því að hafa komið tveim lögum í úrslitaþætti fyrir val á lagi fyrir Söngvakeppni sjónvarpsins.
Petia fæddist í Búlgaríu þar sem hún byrjaði píanónám sitt 5 ára gömul. Hún kom síðan til Íslands þar sem hún lærði hjá Snorra Sigfúsi Birgissyni í Tónlistarskólanum í Reykjavík. Petia fékk styrk til að læra í Idyllwild Arts Academy í Kaliforníu áður en hún fór í framhaldsnám við San Francisco Conservatory. Í Kaliforníu spilaði hún kammertónlist auk þess sem hún spilaði í kirkjum. Hún sneri síðan aftur til Búlgaríu þar sem hún spilaði kammertónlist. Petia hefur kennt á Íslandi í um 20 ár.
Rakel María hóf tónlistarnám 8 ára gömul, þá á píanó. Á unglingsaldri hóf hún söngnám ásamt píanónámi í Tónlistarskólanum í Grafarvogi. Síðar byrjaði hún í söngnámi í Söngskólanum í Reykjavík. Rakel fluttist svo til Álaborgar og lærði tónlistarfræði við háskólann þar. Þar var lögð áhersla á bæði klassíska og rytmíska tónlist. Á Íslandi tók Rakel BA gráðu og kennsluréttindi við Listaháskóla Íslands með söng sem aðalfag. Rakel lagði einnig áherslu á skapandi tónlistarmiðlun í námi sínu. Rakel hefur kennt tónlist í leikskólum og grunnskólum, ásamt því að vera forskólakennari og tónfræðikennari.
Sævar er starfandi tónskáld, kennari og píanóleikari. Hann hóf tónlistarnám sitt í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og FÍH áður en hann fór í LHÍ þar sem hann lauk BA gráðu í tónsmíðum. Samhliða gráðunni fékk Sævar píanótíma hjá Eyþóri Gunnarssyni og Kjartani Valdemarssyni. Eftir útskrift starfaði Sævar við hin ýmsu verkefni ásamt því að kenna. Þ.á.m. samdi hann tónlist fyrir leikhúsuppfærslur og stuttmyndir, vann lagasmiðjur og tónlistarverkefni með fólki í endurhæfingu (Metamorphonics og Korda samfóníu) og hefur gefið út plötur með sinni eigin tónlist. Sævar samdi tónlistina við stuttmyndina Weather Rules the Field, but Whim the Child, sem var m.a. sýnd á kvikmyndahátíðunum Shortshorts & Asia í Tókýó og RIFF í Reykjavík árið 2024. Sævar stundar nú mastersnám í tónsmíðum við LHÍ samhliða kennslu.
Victoria Tarevskaia er frá Moldavíu en hún lærði í Tónlistarskólanum í Moldavíu, í St. Petersburg Conservatory N.A. Rimsky Korsakov og útskrifaðist með mastersgráðu í sellóleik frá Tónlistarakademíu G. Musichescu í Chisinau árið 1994. Victoria lék með Moldavian Philharmonic Symphony Orchestra og Sinfóníu Nord ásamt ýmsum kammerhópum. Victoria hefur starfað sem sellókennari og lausamaður hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands síðan 1999.
© 2024 Tónskólinn í Reykjavík