Saga og stefna

Upphafið og heiðursmenn

Tónlistarskólinn var stofnaður 1991 af Sigríði Árnadóttur tónmenntakennara og skólastjóra skólans og Wilmu Young fiðlukennara. Wilma hélt úti öflugri þjóðlagasveit og fiðlunámi til fjölda ára en lét af störfum vegna veikinda og féll frá árið 2022. Sigríður Árnadóttir var skólastjóri og leiddi öflugt starf skólans frá upphafi fram til ársins 2023. Edda Austmann tók þá við skólastjórn. 

Nafnabreyting

Starf skólans hafði tekið miklum breytingum og skólinn teygt starfsemi sína út í fleiri hverfi en Grafarvoginn eins og Grafarholt, Úlfarsárdal, Háaleiti og Bústaði og Árbæ. Nafn skólans, Tónlistarskólinn í Grafarvogi,  lýsti því ekki starfseminni nægilega vel og var misinngildandi fyrir nemendur. Þá var hugað að nafnabreytingu. Það sem sameinar alla nemendur sem sækja skólann er að þeir búa í Reykjavík enda byggir skólinn starf sitt á þjónustusamningi við Reykjavíkurborg. Edda Austmann, nýr skólastjóri, er fyrrum nemandi Söngskólans í Reykjavík og því vakti nafnið Tónskólinn í Reykjavík sterk tilfinningatengsl. 

Aðrar skólastofnanir
Rétt er að komi fram að Tónskólinn í Reykjavík er ekki sama stofnun og Tónlistarskólinn í Reykjavík sem varð síðar hluti af Menntaskóla í tónlist árið 2017. Sá skóli á sér langa frægðarsögu sem má lesa nánar um hér.  Einnig má ekki rugla Tónskólanum í Reykjavík við Tónmenntaskóla Reykjavíkur sem starfar í Lindargötu. 
 
Um starfið

Tónskólinn í Reykjavík býður upp á fjölbreytt tónlistarnám, í formi hóp- eða einkatíma. Skólinn hefur alla tíð stuðst við aðalnámskrá tónlistarskóla og útskrifað fjölda nemenda á grunn-, mið- og framhaldsstigi. Nemendur geta sótt námið í sínu nærumhverfi. Höfuðstöðvar skólans eru í Hverafold við hliðina á Foldaskóla en kennsla fer einnig fram í fjölda grunnskóla, Grafarvogskirkju og Bústaðakirkju. 

Meginhlutverk skólans er að stuðla að hæfni nemanda til að skapa og leika tónlist en ekki síður til að hlusta og njóta. Skólinn undirbýr nemendur fyrir tónlistariðkun uppá eigin spýtur sem og frekara nám í tónlist og skyldum greinum á mennta- og háskólastigi. Skólinn er skipaður vel menntuðum og metnaðarfullum kennurum sem tileinka sér einstaklingsbundið leiðsagnarnám. Skólinn tryggir nemendum tækifæri til að koma fram á tónleikum og við aðrar uppákomur.

Nánar:

Meginmarkmið Tónskólans í Reykjavík er að veita almenna tónlistarfræðslu, efla vitund og þekkingu barna á tónlist og auka almenna tónlistariðkun. Markmiði skólans er framfylgt með:

  • Kennslu í sem flestum greinum tónlistar, eftir því sem aðstæður leyfa hverju sinni
  • Fjölbreyttu skilyrði nemenda til að þroska tónlistarhæfileika sína og sköpunargáfu
  • Áherslu á félagslegt gildi tónlistariðkunar með ýmiskonar samleik
  • Að veita nemendum tækifæri til að koma sem oftast fram, innan skólans sem utan
  • Að undirbúa nemendur undir áframhaldandi nám í tónlist

Í aðalnámskrá segir að tónlistarskólar gegni fjölbreyttu hlutverki í samfélaginu. Þeim beri að stuðla að öflugu tónlistarlífi jafnframt því að vinna að aukinni hæfni, þekkingu og þroska einstaklingsins. Skólanum ber að taka tillit til mismunandi áhugasviða, getu og þroska nemenda sinna. Kennsluaðferðir og viðfangsefni  þurfa því að vera fjölbreytt og sveigjanleiki í skólastarfi er nauðsynlegur.

Auk tónfræðigreina og forskólanáms er í boði fjölbreytt hljóðfæranám svo sem píanó, gítar, söngur, fiðla, víóla, selló, þverflauta og harmónika. Nemendur sem ljúka forskólanámi við skólann hafa að öllu jöfnu forgang að hljóðfæranámi.

Mikil áhersla er lögð á samspil nemenda og hafa margvíslegir samspilshópar og hljómsveitir verið starfræktar á vegum skólans.  Tónleikahald hefur verið öflugt allt frá stofnun skólans og hafa nemendur skólans ávallt verið hvattir til að taka virkan þátt í flutningi tónlistar fyrir áheyrendur. Skólinn er í virku samstarfi við leik- og grunnskóla sem og aðra tónlistarskóla og tekur þátt í allskyns hátíðahöldum.