Tónlistarskólinn í Grafarvogi verður Tónskólinn í Reykjavík

Tónlistarskólinn í Grafarvogi hefur á sínu 34. starfsári fengið nýtt nafn og merki. Skólinn sem er annar stærstur tónlistarskóla í Reykjavík, hefur vaxið mjög á síðustu árum og teygt sig út fyrir Grafarvoginn. Nú er skólinn einnig með starfsstöðvar í Grafarholti, Úlfarsárdal og Háaleiti – Bústöðum. Nýtt nafn, Tónskólinn í Reykjavík tekur betur utan um alla nemendur sem skólann sækja og þau hverfi sem skólinn starfar í.

Nemendafjöldi skólans nálgast nú 300 en þar af sækir um fimmtungur forskólann. Forskólinn er alhliða tónlistarnám fyrir börn á fyrstu árum grunnskóla sem eru að stíga sín fyrstu skref í tónlistinni. Í forskólanum sækja börn hljóðfærasmiðjur en mikil áhersla er á söng og saman mynda forskóla- og söngnemendur, Barna- og unglingakóra Grafarvogs og Fossvogs. Forskólanemendur fá forgang í áframhaldandi tónlistarnám. Margir nemendur kjósa að sækja áfram söngæfingar samhliða hljóðfæranámi. Skólinn býður upp á nám á fiðlu, víólu, selló, þverflautu, gítar, píanó, harmóníku og söngám. Kennarar skólans eru allir hámenntaðir í sínu fagi og haga námi nemenda eftir þörfum hvers og eins. Nemendur fá að kynnast ólíkum tónlistarstílum og velja tónlist sem talar til þeirra þó ávallt sé lagður grunnur að góðri tækni. Leikgleði og sköpun er látin ráða ferðinni og þá fylgir árangurinn með. Samstarf og þátttaka er kennurum og stjórnendum skólans hjartans mál. Skólinn er í virku samstarfi við aðra tónlistarskóla á höfuðborgarsvæðinu um að efla syngjandi leikskóla og koma hundruðum leikskólabarna á svið á Barnamenningarhátíð. Skólinn er einnig í náinni samvinnu við grunnskóla og kirkjur í hverfum sem skólinn starfar í. Nemendur skólans koma reglulega fram á allskyns tónleikum innan og utan skóla, meðal annars í menningarhúsum eða bókasöfnum í Reykjavík.

Edda Austmann er nýr skólastjóri skólans en hún tók við haustið 2023. Hún hóf störf við skólann haustið 2019 í forskóla- og söngkennslu en bætti síðar við sig deildarstjórn og starfi aðstoðarskólastjóra. Samhliða kennslu lauk Edda diplóma í listkennslu frá Listaháskóla Íslands árið 2022. Áður starfaði Edda sem markaðsstjóri Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss þar sem hún hafði starfað frá fyrir opnun hússins, árinu 2011. Edda hefur lokið mastersgráðum í markaðsfræði frá Háskóla Íslands og í tónlist erlendis frá. Hún var 19 ára gömul þegar hún fluttist til London til að hefja nám í Royal Academy of Music og var búsett þar í sex ár samtals. Á námstíma sínum í London starfaði hún meðal annars í framhúsi Royal Albert Hall og English National Opera og gat því sótt ógrynni tónleika og óperusýninga. Eitt af íhlaupastörfum hennar í London var meðal annars móttaka fyrstu gesta um borð í London Eye. Edda fékk fullan skólastyrk til að stunda óperunám við Royal Conservatoire of Scotland í Glasgow þar sem hún var búsett í tvö ár. Í Glasgow fékk Edda ótal tækifæri til að syngja með hljómsveitum og í boðum æðstu embættismanna. Í kjölfar námsins söng hún við óperuhúsið í Zurich, Íslensku óperuna og víðar í Evrópu. Edda gaf út barnabók og geisladisk um Töfraflautuna eftir Mozart og setti á svið í Hörpu í samstarfi við Töfrahurð og Íslensku óperuna. Edda er gift Gunnari Inga Jóhannssyni lögmanni sem er einn eigenda MAGNA lögmanna á Höfðabakka. Þau eiga saman fjögur börn sem öll stunda tónlistarnám við tónlistarskólann. Þau hafa verið búsett víðvegar í Grafarvogi frá því þau hófu sambúð árið 2008. Hjónin hafa verið virk í foreldrastarfi bæði í Foldaskóla og Ungmennafélaginu Fjölni.

Þó skólinn hafi fengið nýtt nafn byggir starfið á sömu styrku stoðum og heldur í heiðri sögu skólans sem svo margir núverandi sem og fyrrum kennarar og nemendur tengja við. Höfuðstöðvar skólans eru eftir sem áður í Hverafold 5. Rétt er að geta þess að Tónskólinn í Reykjavík er ótengdur öðrum skóla sem áður starfaði og bar titilinn Tónlistarskólinn í Reykjavík en varð hluti af Menntaskóla í tónlist árið 2017.