Uppbrotsdagar

Uppbrotsdagar 3.-8. febrúar

Stundatafla:

Lýsing á námskeiðum:

Heimur söngleikja

Mánudagur 15:00-15:40 og 16:00-16:40

Við gægjumst inn í heim söngleikjanna, söguna og hvernig stíllinn hefur þróast í gegnum tíðina. Hver er munurinn á gullnu öld söngleikjanna, Broadway og Rokksöngleikjum. Nemendur fá að heyra vel valin tóndæmi.

Kennari Antonia Hevesi

 

Rússneski píanóskólinn 

Þriðjudagur 15:30-16:30

Á 19. öld mótuðust ólíkir skólar í tónlist. Einn sá öflugasti var rússneski skólinn, sem enn er að geta af sér frábæra tónlistarmenn. Fjallað verður um skólann, stíl og tækni og talað um nokkra píanóleikara sem voru stórkostlegir fulltrúar skólans líkt og Sviatoslav Richter, Vladimir Horowitz og Vladimir Ashkenazy. Einnig verða leikin verk eftir Tchaikovsky, Rachmaninov, Prokofiev og Shostakovich. Fyrirlesari: Arndís Björk Ásgeirsdóttir, píanóleikari: Andrew Yang.

Námskeiði hentar öllum nemendum eldri en 10 ára eða yngri í fylgd með fullorðnum. 

Kennarar Andrew Yang og Arndís Björk Ágeirsdóttir

 

Klezmer tónlist 

Þriðjudagur kl. 16:30-17:30

Nemendur fá að kynnast þessum sértæka og hrífandi tónlistarstíl frá Miðausturlöndum. Klezmer tónlist var vinsæl meðal gyðinga en stíllinn gætir einnig áhrifa Ottoman tónlistar, barokks og þjóðdansa. Nemendur fá tækifæri til að leika tónlist í Klezmer stíl og mæta því með hljóðfærin sín.

Kennarar Halldór Pétur Davíðsson og Katrin Heymann

 

Daladúó

Miðvikudagur 9:00, 9:30, 10:00 og 10:30

Nemendur leika skemmtileg og aðgengileg lög fjórhent á píanó.

Kennari Katrin Heymann

 

Munnhörputöfrar 

Miðvikudagur kl. 14:30-15:15, 15:15-16:00 og 16:00-16:45

Kynnstu munnhörpunni, því draumkennda hljóðfæri sem getur ferðast með þér hvert sem er. Hún er skemmtilegt spunahljóðfæri sem býður nýja vídd í heim tónlistarinnar.

Munnharpan er mjög persónulegt hljóðfæri og því þarf hver nemandi að eiga sitt eintak. Skólinn er búinn að fjárfesta í munnhörpum í réttri tóntegund fyrir námskeiðið. Nemendur kaupa þær gegn vægu gjaldi, kr. 2.500 sem leggjast inn á reikning skólans.

Kennari Igor Goorsky

 

Garageband 

Miðvikudagur kl. 15:00-15:55

Hér verður haft gaman og sköpuð spennandi tónlist! Garage Band er einfalt tónsmíða- og hljóðvinnsluforrit. Þar eru alls konar tóndæmi sem má leika sér með. Einnig eru þar sýndarhljóðfæri sem hver sem er getur spilað á og blandað saman. Þar má líka búa til danstónlist. Til að fá sem mest út úr námskeiðinu er mælt með að koma með sinn iPad með Garage Band uppsettu ásamt heyrnartólum.

Kennari Jónas Sen

 

Gítarhljómar og spuni – popptónlist 

Miðvikudagur kl. 16:00-17:00

Komdu og njóttu þess að læra undirstöðu hljóma á gítar og að spila í gegnum nokkur vel þekkt popp og rokklög. Við munum líka skemmta okkur við að spinna í kringum þessa hljóma.

Kennarar Javier Jáuregui og Kristófer Hlífar

 

Útsetningar 

Miðvikudagur kl. 17:00-18:00

Í námskeiðinu verður lögð áhersla á hagnýta nálgun þegar kemur að útsetningum. Nemendur fá innsýn inn í raddsvið og eiginleika mismunandi hljóðfæra, almennar reglur í frágangi á nótum og einnig grunnatriði í notkun á nótnaskriftar forritum (s.s. Musescore). Engin undanfari er nauðsynlegur, en gott er ef nemendur hafa lokið að minnsta kosti einu árí í tónfræði.

Kennarar Gunnar Karel Másson

 

Rimaspuni

Fimmtudag kl. 9:00-09:45 og 9:45-10:30

Á námskeiðinu munu nemendur læra grunnhljóma og byrja síðan að spinna yfir þá í hópum. Við notum mismunandi takta til að breyta forminu og koma með hugmyndir fyrir frumsamin lög sem þau geta haldið áfram að spinna heima. Ýmsar aðferðir verða nýttar til að koma sköpuninni af stað eins og t.d. spil. Að lokum verður fjallað um popp tónlist og uppáhaldslögin fundin á youtube svo nemendur geti lært að spila þau heima. 

Kennari Petia Benkova

 

Múrbalatrommusláttur

Fimmtudag kl. 15:00-15:45, 16:00-16:45, 17:00-17:45

Allir þátttakendur fá múrbala sem þeir binda utanum sig og tvo kjuða. Síðan er einfaldlega talið í. Taktar, break, grúv og hreyfingar, auk þess sem skoðuð verða þau fjölmörgu hljóð sem hægt er að ná úr þessum ósköp venjulegu svörtu plastfötum. 

 Kennarar Hrafnkell Örn Guðjónsson og Esther Þorvaldsdóttir

  

Gítargripanámskeið 

Fimmtudagur kl. 15:30-17:00

Hér gefst þátttakendum tækifæri til að uppgötva popparann í sér. Nemendur læra nytsamleg grip sem nýtast til að pikka upp hinar perlur rokksögunnar.

Kennari Grétar Geir Kristinsson

 

Virkjum snjalleyrað

Fimmtudagur kl. 16:00-16:50

Nemendur æfa meðvitaða hlustun og greiningu sem nýtast þeim í nótnalestri og skráningu sinna eigin tónverka. Nemendur fá góð ráð og tæki til að efla tónminnið og hæfni til að skapa sín eigin verk, stór og smá. Hentar byrjendum og nemendum sem eru í Ópus 1-2.  

Kennari Rakel María Axelsdóttir

 

Greindu tóntegund á örskotsstundu

Fimmtudagur kl. 17:00-17:50

Nemendur æfa sig í að greina tóntegundir á örskotsstundu með hjálp fimmundarhringsins. Góður skilningur á fimmundarhringnum gerir greiningu tóntegunda eins og viðráðanlegt Sudoku. Hentar nemendum sem eru í Ópus 3-4 eða öðrum sem vilja skerpa á fimmundarhringnum.  

Kennari Rakel María Axelsdóttir

 

Klassískur gítar – samleikur

Föstudagur kl. 15:30-16:30

Við búum til gítarhljómsveit! Yngri og eldri nemendur á klassískan gítar leika saman spennandi útsetningar sem eru aðgengilegar styttra og lengra komnum nemendum. Kennarar geta fengið nótur fyrirfram en einnig er hægt að lesa nótur á staðnum.

Kennari Javier Jáuregui

 

Fylgstu með söngtíma 

Föstudagur kl. 15:20-16:00 og 16:00-16:50

Langar þig að læra að syngja? Viltu kynnast hvernig söngnám fer fram? Hér gefst tækifærið.

Kennari Auður Guðjohnsen

 

Íslenskar gersemar og önnur samspilsverk 

Föstudagur 16:30-17:45

Leikin verða fjögur verk í fjórum mismunandi hópum sem skipaður er fiðlum, flautum. sellóum, harmóniku og píanói. Lagið Vísur vatnsenda-Rósu (Augun mín og augun þín) er ætlað yngstu nemendunum og hægt að hafa þrjá píanóleikara á einu píanói (Einnig verður hljómborð í notkun). Hin þrjú verkin Kansóna eftir Áskel Másson, Rússneskt þjóðlag og „Now let us to the bagpipe sound“ úr sveitakantötu Bachs er ætlað aðeins lengra komnum nemendum. Tveir samspilshópar halda svo áfram framá vor að fullæfa verkin. Undirbúnings er krafist og nótur til reiðu. Hentar öllum fiðlu, flautu og sellónemendum en takmarkaður fjöldi píanónemenda kemst að. Skráning í samráði við kennara.  

Kennarar Arndís Björk Ásgeirsdóttir, Victoria Tarevskaia, Katrin Heymann og Halldór Pétur Davíðsson

 

Spunastrengir

Laugardagur kl. 10:00-12:00

Frjáls spuni fyrir strengjaleikara – fiðlur og selló.

Kennarar Auður Hafsteinsdóttir, Matthías Stefánsson og Victoria Tarevskaia

 

Hljóðleiðangur

Laugardagur, kl. 13:00-14:30

Námskeiðið byrjar á vettvangsferð í leit að hljóðum til þess að taka upp. Leitin getur bæði verið innan og utandyra (fer eftir veðri) svo endilega komið vel klædd. Eftirá vinnum við saman með hljóðin í tölvunni til þess að breyta hljóðunum með því að klippa þau saman, setja á effekta o.s.frv

Kennarar Hafdís Kristinsdóttir og Sævar Helgi Jóhannsson